Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 692/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 692/2021

Fimmtudaginn 31. mars 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. desember 2021, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.   

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 29. ágúst 2020 og var umsókn hans samþykkt þann 30. september 2020. Þann 22. nóvember 2021 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. desember 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á umræddu starfi. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. desember 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Frekari skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Í kjölfar endurupptöku Vinnumálastofnunar á máli kæranda í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest þann 30. desember 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. desember 2021. Með bréfi, dags. 4. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Viðbótargögn og athugasemdir kæranda voru sendar stofnuninni þann 14. janúar 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 15. febrúar 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 18. febrúar 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að þann 9. nóvember 2021 hafi honum borist skilaboð frá Vinnumálastofnun. Honum hafi verið tilkynnt að ferilskrá hans hefði verið send til B og að möguleikar væru á að fyrirtækið myndi bjóða honum atvinnuviðtal. Þann 15. nóvember 2021 hafi kærandi fengið símtal frá fyrirtækinu og honum tjáð að mæta í atvinnuviðtal 16. nóvember 2021. Kærandi hafi mætt í viðtalið þann 16. nóvember og hafi látið fylgja nákvæma skýringu á því sem fram fór í viðtalinu til Vinnumálastofnunar. Þetta hafi jafnframt verið hans síðustu samskipti við fyrirtækið.

Þann 8. desember 2021 hafi kærandi móttekið bréf frá Vinnumálastofnun þar sem hann hafi verið beðinn um að gefa skýringar á höfnun á atvinnutilboði frá B og honum gerð grein fyrir mögulegum viðurlögum. Sama dag hafi kærandi sent bréf til stofnunarinnar þar sem hann hafi skýrt frá staðreyndum málsins. Kærandi hafi skýrt frá því að hann hafi ekki átt nein frekari samskipti við fyrirtækið frá 16. nóvember 2021. Kærandi hafi ekki móttekið formlegt atvinnutilboð frá fyrirtækinu og hafi ekki fengið nein símtöl, skilaboð eða tölvupósta frá fyrirtækinu.

Þann 17. desember hafi Vinnumálastofnun tekið ákvörðun í máli hans um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði. Kærandi hafi ekki fengið skýringar á því á hverju ákvörðunin var byggð og hvernig stofnunin hefði sannað að hann hefði hafnað atvinnutilboði. Vinnumálastofnun hafi ekki getað gefið honum frekari skýringar. Stofnunin hafi aðeins getað bent honum á skýrslu frá B og að samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hefði kærandi hafnað atvinnutilboði. Honum hafi verið tjáð af Vinnumálastofnun að hann þyrfti að afla gagna frá símafyrirtækinu sínu. Hann hafi því látið fylgja með yfirlit yfir öll símtöl, skilaboð og netnotkun á tímabilinu 17. nóvember 2021 og til loka mánaðarins þegar hann átti að hafa hafnað atvinnutilboðinu.

Kærandi vilji að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð og að metið verði hvort hægt sé að svipta hann rétti einungis á grundvelli skýrslu atvinnurekanda og engra annarra sönnunargagna. Hann telji þetta vera rétt sinn samkvæmt landslögum og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, nánar tiltekið 7. gr. hennar.

Að mati kæranda hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar eingöngu verið byggð á skýrslu atvinnurekanda eða þess aðila sem hafi tekið hann í viðtal. Hann telji viðkomandi aðila eingöngu hafa viljað valda skaða. Atvinnurekandi hefði þess í stað getað upplýst kæranda um skyldu til að mæta og þær afleiðingar sem það hefði í för með sér að mæta ekki, þ.e. að missa rétt til atvinnuleysisbóta. Kærandi líti svo á að atvinnurekandi hafi nýtt sér það vald sem hann hafi frá Vinnumálastofnun til að leika sér með framtíð fólks, þrátt fyrir að vita að kærandi væri í erfiðri stöðu og þyrfti að styðja ólétta konu sína.

Kærandi telji Vinnumálastofnun ekki geta tekið slíka ákvörðun án þess að hlusta á og taka mið af skýringum beggja aðila. Hann telji ákvörðun ekki geta verið tekna án viðhlítandi sönnunargagna og að umrædd ákvörðun sé geðþóttaákvörðun. Þá telji hann að sá aðili, sem ákvörðunin beinist gegn, þurfi að vita nákvæmlega hvaða sönnunargögn hafi verið færð fram gegn honum.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann skilji ákvörðun Vinnumálastofnunar þannig að ekki sé byggt á höfnun hans á starfi heldur að framferði hans megi jafna við það að hann hafi hafnað starfi. Hann sé hættur að skilja málið og skýringar Vinnumálastofnunar.

Þann 8. desember hafi kæranda borist bréf þar sem komi fram að hann hafi hafnað atvinnutilboði þann 22. nóvember. Því bréfi hafi kærandi svarað. Þann 17. desember hafi verið tekin ákvörðun í málinu, byggð á skýrslu frá B, þar sem hann hafi verið sviptur lagalegum rétti sínum. Á skrifstofu Vinnumálastofnunar hafi kærandi verið upplýstur um að samkvæmt upplýsingum sem stofnunin hafi frá atvinnurekanda hafi kærandi ekki hafnað starfi í viðtalinu sjálfu heldur í gegnum síma. Kærandi hafi látið fylgja með yfirlit yfir símtöl og skilaboð á þessu tímabili, bæði úr eigin síma og síma eiginkonu sinnar. Þann 30. desember hafi ákvörðun stofnunarinnar verið staðfest. Honum hafi verið tjáð að samkvæmt upplýsingum frá B hafi kærandi fyrst tekið starfinu en hafi nokkru síðar hafnað því. Í svörum Vinnumálastofnunar komi fram að stofnunin telji að framferði kæranda megi leggja að jöfnu við það að hafna starfi. Þá komi jafnframt fram að hann hefði hafnað atvinnutilboðinu strax í viðtalinu. Kæranda þyki erfitt að skilja ákvarðanir stofnunarinnar þar sem röksemdarfærsla hennar breytist í hverju svari.

Kærandi vilji ekki að orð sín séu tekin úr samhengi. Hann vilji skýra nánar þær aðstæður sem hafi verið uppi í viðtalinu. Atvinnurekandi hafi gert það skýrt að hann væri að taka fleiri aðila í viðtöl. Þeir hafi átt vinalegar samræður þar sem kærandi hafi lýst fyrri reynslu sinni. Hann hafi sagst vera fljótur að læra en jafnframt greint frá vandamálum sem hann hafi upplifað í fyrra starfi, svo sem slæmri framkomu yfirmanna og að brotið hafi verið á réttindum starfsmanna. Hann telji vinnuumhverfi mikilvægara en hve erfið vinnan sé. Atvinnurekandi hafi tjáð honum að vinnan væri erfið en að reynt væri að gera hana auðveldari. Kærandi hafi verið öruggur í viðtalinu og sagt atvinnurekanda frá því í einlægni að hann væri að leita að starfi sem hentaði betur sinni reynslu og menntun. Hann myndi því frekar kjósa starf á hóteli ef hann fengi að ráða. Þeir hafi í kjölfarið skoðað vinnustaðinn saman og kærandi gert ráð fyrir að hann fengi skilaboð eða símtal ef hann yrði valinn í starfið.

Kærandi telji ákvörðun Vinnumálastofnunar ekki byggða á sönnunargögnum, aðeins ágiskunum. Framferði hans hafi ekkert með höfnun eða synjun á starfi að gera. Þetta sé ekki sami hluturinn og kærandi óski því eftir skýringum á því.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 29. ágúst 2020. Með erindi, dags. 30. september 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Þann 22. nóvember 2021 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B í kjölfar atvinnuviðtals þann 16. nóvember 2021. Með erindi, dags. 8. desember 2021, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði og athygli vakin á hugsanlegum viðurlögum. Skýringar kæranda hafi borist samdægurs þar sem kærandi segi að hann hafi ekki hafnað starfi heldur hafi hann upplýst atvinnurekanda um að ef hann fengi einhverju um það ráðið myndi hann frekar velja starf í samræmi við starfsreynslu sína, eða nánar tiltekið starf í gestamóttöku hótels. Þá hafi kærandi ítrekað í erindi til stofnunarinnar, dags. 9. desember 2021, að atvinnurekandi hafi ekki haft samband við hann eftir atvinnuviðtalið og að hann hefði ekki hafnað starfinu. Kærandi kvaðst gera mikinn mun á því að hafna starfi og að kjósa annað starf. Hann væri tilbúinn að hefja störf strax daginn eftir. Þann 16. desember 2021 hafi Vinnumálastofnun fjallað um höfnun kæranda á atvinnutilboði. Í kjölfarið hafi kærandi verið upplýstur um að það væri mat stofnunarinnar að skýringar hans teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að bótaréttur hafi verið felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir.

Frekari skýringar hafi borist frá kæranda þann 16. desember 2021 ásamt beiðni um endurupptöku. Kærandi hafi þar greint frá því að hann hefði ekki hafnað starfi líkt og atvinnurekandi hafi greint frá og um væri að ræða orð á móti orði. Það væri mat kæranda að stofnunin hefði tekið ákvörðun án beinna sannana. Með erindi, dags. 20. desember 2021, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir frekari skýringum frá atvinnurekanda vegna höfnunar á starfi. Atvinnurekandi hafi svarað erindinu samdægurs og greint frá því að kærandi hefði komið í viðtal og þegið starfið en þegar hafi verið komið að því að mæta hafi kærandi hringt og sagst ekki hafa áhuga á starfinu því að honum hefði boðist annað betra.

Þann 30. desember 2021 hafi kærandi verið upplýstur um að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun frá 17. desember 2021, enda hefði hún haft að geyma efnislega rétta niðurstöðu í málinu. Umbeðinn rökstuðningur hafi verið veittur samhliða ákvörðun.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda vegna höfnunar á starfi.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði um að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.  

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. 

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segi í 4. mgr. sömu greinar:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni skv. vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu.

Kærandi hafi gefið skýringar á höfnun á starfi til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndar. Samkvæmt upplýsingum frá B hafi kæranda verið boðið starf og hann þegið það en þegar hafi verið komið að því að hefja störf hafi kærandi upplýst atvinnurekanda að hann hygðist ekki taka starfinu þar sem honum hefði boðist betra atvinnutilboð. 

Líkt og áður hafi verið rakið hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá sé atvinnuleitendum skylt að taka þeim störfum sem kunni að bjóðast, án sérstaks fyrirvara. Samkvæmt skýringum kæranda hafi hann ekki hafnað starfi heldur hafi hann upplýst atvinnurekanda um að ef hann fengi einhverju um það ráðið myndi hann frekar velja starf í samræmi við starfsreynslu sína, eða nánar tiltekið starf í gestamóttöku hótels. Að mati Vinnumálastofnunar megi leggja afstöðu kæranda og framferði hans í atvinnuviðtali að jöfnu við það að kærandi hafi hafnað starfi. Í ljósi framangreinds séu skýringar kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði. Út frá fyrirliggjandi gögnum sé ekki fallist á að kærandi hafi verið reiðubúinn að taka því starfi sem hafi boðist, án sérstaks fyrirvara.

Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni skv. vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í fyrirliggjandi samskiptasögu kemur fram að ferilskrá kæranda hafi verið send til B þann 9. nóvember 2021. Þann 22. nóvember 2021 er svo skráð í samskiptasöguna að kærandi hefði hafnað starfi hjá því fyrirtæki. Á grundvelli þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á þeirri forsendu að hann hefði hafnað starfi. Í kjölfar endurupptöku á máli kæranda óskaði Vinnumálastofnun eftir upplýsingum frá fyrirtækinu um með hvaða hætti kærandi hefði hafnað starfi. Í svari fyrirtækisins kom fram að kærandi hefði þegið starfið í atvinnuviðtali en þegar komið hafi verið að mætingu hafi hann hringt og sagst ekki hafa áhuga á starfinu því að honum hafi boðist betra starf. Kærandi hefur mótmælt því sem röngu og tekið fram að síðustu samskipti hans við fyrirtækið hafi verið í viðtalinu sjálfu. Þar sem ekki hafi verið haft samband við hann í kjölfar viðtalsins hafi hann talið að hann hefði ekki fengið starfið. Þá hefur kærandi lagt fram símtalaskrá sína því til stuðnings.

Í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar vísaði Vinnumálastofnun til þess að kærandi hefði greint frá því í atvinnuviðtali að ef hann fengi einhverju um það ráðið myndi hann frekar velja starf á hóteli í samræmi við starfreynslu sína og að mati stofnunarinnar megi jafna framferði kæranda í umræddu atvinnuviðtali við höfnun á atvinnutilboði. Þá hefur Vinnumálastofnun einnig vísað til þess að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fallist stofnunin ekki á að kærandi hafi verið reiðubúinn að taka því starfi sem bauðst.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi hafnað starfi með sannanlegum hætti, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Af gögnum málsins verður ekki ráðið, svo óyggjandi sé, hvort kæranda hafi sannanlega verið boðið starf og hann hafnað því. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. desember 2021, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum